Opnirreikningar.is var opnaður í september 2017 með það að markmiði að auka gagnsæi og aðgengi almennings að fjárhagsupplýsingum ríkisins. Á vefnum er unnt að skoða upplýsingar um greidda reikninga ráðuneyta og stofnana úr bókhaldi ríkisins.
Birtar eru reikningsupplýsingar úr fjárhagskerfi ríkisins. Vefurinn er uppfærður mánaðarlega og nýjar upplýsingar birtast að jafnaði 10. hvers mánaðar. Þær upplýsingar sem birtar eru tengjast reikningum sem greiddir voru í mánuðinum á undan.
Á vefnum er hægt að leita eftir stofnun, birgja, tegund kostnaðar og tímasetningu.
Vefurinn byggir á því að birta upplýsingar um greiðslur sem fara í gegnum viðskiptaskuldakerfi stofnana, en þangað fara reikningar fyrir kaup á vörum og þjónustu. Greiðslur sem ekki fara í gegnum viðskiptaskuldakerfið eru ekki birtar, en það eru t.d. launagreiðslur, greiðslur í erlendum gjaldeyri og greiðslur á bótum og styrkjum.
Í verkefninu hefur verið hugað sérstaklega að persónuvernd, upplýsingum sem gætu haft skaðleg áhrif á samkeppni og upplýsingum sem varða öryggismál. Í þessu skyni voru settar upp síur til að tryggja að viðkvæmar upplýsingar birtist ekki.
Síurnar eru þessar:
Tegund kostnaðarÞessi sía er notuð fyrir bókhaldstegundir þar sem flestar eða allar færslur eru viðkvæmar. Dæmi um það er tegund 54430 „Læknar, hjúkrunarfræðingar og sjúkraþjálfarar“ Í slíkum færslum geta viðkvæmar upplýsingar um einstaklinga koma fram. Annað dæmi er tegundir fyrir greiðslum til fanga.
Kostnaðarstaður (viðfang)Tiltekin viðföng eru undanskilin, á borð við „Málskostnaður“ í opinberum málum eða „Rekstur öryggissvæðis“.
Kennitölur einstaklingaÍ gegnum viðskiptaskuldakerfið fara margar greiðslur til einstaklinga. Um er að ræða endurgreiðslur á kostnaði, dagpeninga og kaup á þjónustu. Vegna persónuverndarsjónarmiða verða ekki birtar upplýsingar um greiðslur til einstaklinga ef viðkomandi hefur ekki gilt VSK-númer. Ef viðkomandi hefur gilt VSK-númer þá eru upplýsingar birtar, enda er þá litið svo á að þær varði atvinnustarfsemi.
Ef óskað er frekari upplýsinga um einstakar færslur er vísað til viðkomandi stofnana.
Ef spurningar vakna um virkni vefsins er bent á að hafa samband við Fjársýslu ríkisins, hjalp@fjs.is